Takmarkanir geta skapað virði
Peter Drucker, oft nefndur maðurinn sem fann upp stjórnunarfræðin, talar um að það sé tvennt sem skapi fyrirtækjum virði, markaðssetning og nýsköpun. Forsenda nýsköpunar er sköpunargleði og er hún skilgreind sem eitthvað nýtt og nytsamlegt.
Samkvæmt könnun sem IBM gerði, með því að spyrja yfir 1500 framkvæmdastjóra víða um heiminn, þá er sköpunargleði það sem þarf til að ná árangri. Rannsóknir gefa til kynna að sköpunargleði og nýsköpun séu nauðsynlegir þættir fyrir samkeppnishæfni og áframhaldandi tilveru fyrirtækja. Höfundurinn Daniel Pink er sammála þessu og talar um í bók sinni A Whole New Mind að framtíðin muni tilheyra fólki sem er skapandi.
Efla má sköpunargleði á ýmsan máta, t.d. getur verið árangursríkt að nota takmarkanir til að ýta undir sköpun. Gott dæmi um það er þegar ritstjóri barnabókahöfundarins Dr. Seuss skoraði á hann að skrifa bók með einungis 50 mismunandi orðum. Dr. Seuss tók áskoruninni og úr varð Green Egg and Ham, ein mest selda enska barnabók allra tíma. Annað dæmi er þegar netfyrirtækið AppSumo setti takmarkanir á auglýsingakostnað fyrirtækisins, þ.e. að hann yrði lækkaður úr um 175 milljónum kr. í um 42 milljónir kr. á ári. Útkoman varð aukin sköpun og meiri árangur.
Hvaða takmarkanir getur þú nýtt þér í þessari viku til að efla sköpunargleði þína?
Birna Dröfn Birgisdóttir er doktorsnemi við Háskólann í Reykjavík þar sem hún rannsakar sköpunargleði og þjónandi forystu. Birna er einnig stjórnendamarkþjálfi, NLP practitioner og skrifar um sköpunargleði á www.valorokreo.com.