Tækifæri á breyttum tímum - Neytendur vilja vita
Neytendum er ekki sama hvernig vara verður til. Uppruni og hver framleiddi hana skiptir máli svo og heilnæmi. Sumir spyrja úr hverju varan er, hvort hún er lífræn, hvort gengið hafi verið á gæði náttúrunnar við framleiðslu hennar og hverjar séu aðstæður starfsfólks. Rekjanleiki og sjálfbærni eru nefnd í sömu andránni.
Að hluta til snýst þetta um upplifun og að hluta öryggi. Fyrir það eru sumir neytendur tilbúnir að greiða hærra verð.
Með nýjustu tækni aflar neytandinn sér þekkingar um vörur beint í smartsímann. Þar með skapast ný tækifæri við að tengja saman tiltekna vöru og sérstakar þarfir viðskiptavina, “the long tail á markaðnum. Virðiskeðjan verður styttri í raun, tækifæri gefast fyrir fyrirtæki til að vera nær markaðnum og fækka þar með milliliðum.
“Verkfærin sem fyrirtæki í fararbroddi nýta til að byggja upp innra verklag nýsköpunar, tryggja eiginleika vöru og miðla til neytenda eru m.a. vottuð umhverfismerki s.s. Norræni svanurinn, Evrópublómið, MSC og KRAV, Fairtrade, auk staðla um umhverfis- og gæðastjórnun, samfélagsábyrgð og yfirlit um kolefnisspor eða vistspor. Þau sem skara framúr hafa tileinkað sér þessi tæki, skilja orðfærið og eru hluti af lausninni.
Lykillinn er nýskapandi hugsun þar sem sérstaðan er skilgreind og sett í samhengi með þeim verkfærum sem neytandinn þekkir. Hér á landi höfum við það sem til þarf; úrvals hráefni, hreint vatn, staðaranda og fyrirtæki sem fylgja lögum um vinnuvernd.Reynslan hefur sýnt að með því að nýta verkfærin og miðla þessum eiginleikum um hágæða vöru, má skila meiri hagnaði.
Greinarhöfundur: Halldóra Hreggviðsdóttir, framkvæmdastjóri Alta