Þrír kunnir stjórnendur fengu stjórnunarverðlaun Stjórnvísi 2013 við hátíðlega athöfn félagsins í Turninum í gær. Þetta voru þau Egill Jónsson, framleiðslustjóri Össurar, Ásbjörn Gíslason, forstjóri Samskipa og Guðbjörg Edda Eggertsdóttir, forstjóri Actavis á Íslandi. Forseti Íslands, Ólafur Ragnar Grímsson afhenti verðlaunin að viðstöddu miklu fjölmenni. Þetta er í fjórða árið í ráð sem verðlaunin eru veitt og hefur forseti Íslands afhent þau frá upphafi.
Stjórnvísi er stærsta stjórnunarfélag á Íslandi með yfir 2 þúsund félagsmenn og yfir þrjú hundruð fyrirtæki innan sinna raða. Innan félagsins starfa um nítján faghópar á mismunandi sviðum stjórnunar. Þannig fékk Ásbjörn Gíslason verðlaun fyrir þjónustu og markaðsstjórnun, Egill fyrir framleiðslu- og straumlínustjórnun og Guðbjörg Edda fyrir stefnumótun. Bára Sigurðardóttir, formaður dómnefndar, flutti ræðu fyrir hönd dómnefndar.
Á verðlaunahátíðinni fluttu þrír kunnir stjórnendur fyrirlestra sem vöktu mikla athygli. Það voru þau Janne Sigurðsson, forstjóri Alca Fjarðaáls, Stefán Eiríksson, lögreglustjóri á höfuðborgarsvæðinu og Björgólfur Jóhannsson, forstjóri Icelandair Group og nýkjörinn formaður Samtaka atvinnulífsins.
Stjórnvísi er opið öllum einstaklingum og fyrirtækjum sem hafa áhuga á stjórnun og vilja fylgjast með nýjustu stefnum og straumum á þeim vettvangi. Félagið verður 27 ára á þessu ári og hét upphaflega Gæðastjórnunarfélag Íslands.
Markmið stjórnunarverðlaunanna er að vekja athygli á faglegu og framúrskarandi starfi
stjórnenda. Allar nánari upplýsingar um stjórnunarverðlaunin er að finna á heimasíðu Stjórnvísi; stjornvisi.is
Myndatexti:
Verðlaunahafar ásamt forseta Íslands. Ásbjörn Gíslason, forstjóri Samskipa, og Guðbjörg Edda Eggertsdóttir, forstjóri Actavis á Ísland, voru erlendis. Frá vinstri: Auður Þórhallsdóttir, mannauðsráðgjafi Samskipa og Bára Mjöll Ágústsdóttir, mannauðsstjóri Samskipa, sem tóku við verðlaunum fyrir hönd Ásbjörns Gíslasonar, Eyjólfur Þ. Haraldsson læknir, sem tók við verðlaunum fyrir hönd eiginkonu sinnar Guðbjargar Eddu Eggertsdóttur, Egill Jónsson, framleiðslustjóri Össurar, og Ólafur Ragnar Grímsson, forseti
Íslands, sem afhenti verðlaunin.