Stjórnvísi hefur aldrei verið fjölmennara og líklegast aldrei sterkara en á þessu starfsári. Félagið er orðið þekkt fyrir góða og upplýsandi fundi og ráðstefnur og starf sem einkennist af eldmóði, leikgleði og ánægju.
Fundir á vegum faghópa verða sífellt fjölmennari og er svo komið að fundir á bilinu 50 til 100 manns þykja ekki lengur neitt tiltökumál. Stjórnvísi er núna mun þekktara en áður á meðal forráðamanna fyrirtækja og atvinnulífið gerir sér betur grein fyrir að þátttaka starfsmanna í félaginu er ódýrasta símenntunin á markaðnum.
Félagsmenn eru núna um 2.150 og fjölgaði um hátt í fjögur hundruð frá síðasta aðalfundi. Alls voru haldnir 95 viðburðir á starfsárinu. Það sem meira er um vert; hvorki fleiri né færri en 3.500 félagsmenn hafa mætt á þá og tekið þátt af miklum áhuga. Í fyrra voru 72 viðburðir sem um 2.300 félagar sóttu.
Ég vil þakka öllum félagsmönnum í Stjórnvísi fyrir áhugann og leikgleðina - og að gera félagið jafn virkt og sterkt og raun ber vitni. Góður starfsandi leysir krafta úr læðingi.
Stjórn félagins hélt 14 fundi á starfsárinu og var mæting á þá mjög góð. Unnið hefur verið samviskusamlega eftir stefnu fyrri ára um að halda vel utan um faghópana og efla þá til dáða. Það hefur m.a. verið gert með því að efna til fjölmennra funda með stjórnum faghópanna í byrjun starfsárs að hausti og um miðbik þess í janúar. Mætingin hefur verið sérlega góð og gefandi, eflt félagsandann og hefur eldmóður fundarmanna hvatt bæði faghópa og stjórn til dáða. Kjarninn í stefnu félagsins er einfaldur: Faghóparnir eru lífæð félagsins.
Stjórnin hefur sömuleiðis fylgt mótaðri stefnu um að gera félagið þekktara innan atvinnulífsins. Þar vegur þyngst haustráðstefna félagsins, Stjórnunarverðlaunin og ekki síst glæsileg þátttaka í Íslensku ánægjuvoginni, en hún nýtur mikillar virðingar á meðal stjórnenda. Aukið fé hefur verið lagt í kynningar og auglýsingar á þessum glæsilegu viðburðum. Þá hefur verið lögð rík áhersla á samstarf við önnur félög - þar sem það á við. Gott dæmi þar um er þátttaka í hádegisfundaröð Klaks - Nýsköpunarmiðstöðvar atvinnulífsins.
Stjórnin sendi síðastliðið haust bréf til hundraða stjórnenda í atvinnulífinu til að vekja athygli þeirra á hvílíkur fjársjóður félagið er fyrir starfsmenn vegna ólíkra og mjög svo skapandi funda um stjórnun almennt sem og nýjustu strauma í stjórnun hverju sinni.
Í bréfinu var lögð áhersla á að námskeiðin og fundirnir væru félagsmönnum nánast alltaf að kostnaðarlausu og að fyrirtækin greiddu fast árgjald fyrir starfsmenn sína og var því hiklaust haldið fram að þátttaka í Stjórnvísi væri ódýrasta símenntunin á Íslandi.
Bent var sérstaklega á eftirfarandi:
Stjórnvísi er stærsta stjórnunarfélag á Íslandi með 2.150 virka félagsmenn og yfir 300 fyrirtæki innan sinna raða.
Stjórnvísi er áhugamannafélag í eigu félagsmanna og starfar ekki með fjárhagslegan
ágóða í huga.
Stjórnvísi er opið öllum einstaklingum, fyrirtækjum og stofnunum sem hafa áhuga á stjórnun; stjórnendum, sérfræðingum, nemendum og öðrum áhugamönnum um stjórnun.
Stjórnvísi býður hagstæðustu símenntunina. Flest námskeiðin eru ókeypis fyrir
félagsmenn.
Stjórnvísi er með kjarnastarf sitt í kraftmiklum faghópum félagsmanna en jafnframt
stendur félagið fyrir almennum ráðstefnum, viðburðum og verðlaunaveitingum í
stjórnun.
Stjórnvísi vinnur náið með háskólasamfélaginu og er afar mikilvægt að það samstarf haldi áfram enda félaginu nauðsynlegt að tengjast viskubrunni fræðanna.
Ég vil þakka framkvæmdastjóra félagsins, Gunnhildi Arnardóttur, fyrir mjög gott og óeigingjarnt starf. Hún hefur hvatt faghópana til dáða og haldið af festu utan um allt starf félagsins síðastliðin þrjú ár.
Að lokum vil ég þakka félögum mínum í stjórninni starfsárið 2012 til 2013 fyrir árangursríkt og skemmtilegt samstarf. Þetta eru þau Einar S. Einarsson, Þorvaldur Ingi Jónsson, Hrefna Briem, Teitur Guðmundsson, Agnes Gunnarsdóttir, Fjóla María Ágústsdóttir, Nótt Thorberg og Sigurjón Þór Árnason. Tvö síðastnefndu eru varamenn í stjórn en þeir sitja alla fundi stjórnar og taka þátt í starfinu sem stjórnarmenn væru.
Ég hverf núna úr stjórn eftir fjögurra ára setu, þar af síðustu tvö árin sem formaður. Þetta hefur verið einstaklega ánægjulegur tími fyrir mig og forréttindi að hafa kynnst svo mörgu og áhugasömu fólki um stjórnun. Gangi félaginu allt í haginn á komandi árum.
Jón G. Hauksson, formaður stjórnar Stjórnvísi.