Siðferðileg ábyrgð fyrirtækja
Bandaríski hagfræðingurinn Milton Friedman sagði eitt sinn að eina siðferðilega skylda fyrirtækja væri að þau hámörkuðu hagnað sinn. Með þessu átti Friedman vitanlega ekki við að fyrirtæki ættu að fara sínu fram án tillits til laga og regnla, né að stjórnendur þeirra bæru ekki siðferðilega ábyrgð sem einstaklingar, heldur að fyrirtæki sem slík lytu aðeins hagnaðarmarkmiðum - annað væri blekking.
Margir hafa andmælt þessu og sagt að fyrirtæki sem slík geti haft siðferðisskyldur sem ganga lengra en lagaramminn. Setning siðareglna og fræðsla um siðfræði er nú vaxandi aukabúgrein ráðgjafa og háskólakennara.
En þótt fyrirtæki lúti lögum og reglum og þótt innan þeirra mótist venjur og menning, eru þau ekki siðferðisverur. Fyrirtæki taka ekki ákvarðanir, það gera stjórnendur þeirra og starfsmenn. Hegðun fyrirtækis má ávallt rekja til ákvarðana einstaklinga, þótt auðvitað geti greining þeirra stundum verið snúin.
Setning siðareglna getur vissulega verið gagnleg ef eftir þeim er farið. Sterk rök hníga þó að því að til að bæta hegðun fyrirtækja sé gagnlegast að bæta siðferði einstaklinganna, sem innan þeirra starfa. Þar er kannski mikilvægast að tryggja þeim frelsi til að breyta í samræmi við eigin samvisku.
Það er rétt hjá Milton Friedman að fyrirtæki hafa ekki siðferðisskyldur. Þær hafa aðeins stjórnendur og starfsmenn og skyldurnar eru nákvæmlega þær sömu í vinnunni og utan hennar. En það breytir ekki því að rétt eins og við getum sagt að samfélag sé gott eða slæmt getum við sagt að fyrirtæki sé gott eða slæmt. Þar ræður mestu hvort þeir sem starfa innan þess hafa frelsi til að breyta rétt og hugrekki til að gera það.
Þorsteinn Siglaugsson