Ég tel að þrátt fyrir að við séum meðvituð um hluta af okkar samskiptamynstri sé stór hluti sem við erum okkur ekki meðvituð um.
Ef þú vilt breyta eða bæta samskipti þín er góð leið að byrja á því að skoða hvernig þau birtast þér í dag. Það getur hjálpað að skrifa það niður eða að ræða við aðila sem þú treystir. Síðan getur þú bætt við hvers vegna þú vilt breyta eða bæta samskipti þín. Ef þú sérð engin mynstur í þínum samskiptum sem þú vilt breyta eða bæta er gott að skrifa niður eða ræða um hvað einkennir góð samskipti og hvers vegna þessi atriði skipta máli.
Þessi aðferð getur auðveldað þér að koma auga á hvar þú getur bætt þig hvað samskipti varðar. Þegar þú veist hverju þú vilt breyta eða bæta í þínum samskiptum er gagnlegt að skrifa niður eða ræða um hvernig þú sérð samskipti þín fyrir þér eftir þessar breytingar.
Hvað einkennir vinnudaginn, heimilislífið og aðrar aðstæður eftir þessar breytingar?
Hverju breytir það þegar þú hefur bætt eða breytt þínum samskiptum við sjálfan þig og aðra?
Er hugsanlegt að þú getir stuðlað að því að aðrir bæti sig í samskiptum?
Þegar þú hefur farið yfir þau samskipti sem vilt sjá hjá sjálfri/um þér getur þú ákveðið hvernig þú ætlar að bæta samskipti þín við sjálfa/n þig og aðra. Flest getum við verið sammála um að það sé mikilvægt að eiga góð samskipti við okkur sjálf og þá sem eru í kringum okkur.
Annetta Ragnarsdóttir ACC markþjálfi Eigandi og framkvæmdarstjóri Anra