Opinberir aðilar veita formleg leyfi til rekstar. Fyrirtæki þurfa engu að síður að starfa í sátt við samfélagið. Því hefur hugtakið samfélagslegt rekstrarleyfi (e. social license to operate) orðið til. Það felur í sér að fyrirtæki fá óformlegt leyfi samfélagsins til rekstrar, umfram leyfi frá opinberum aðilum. Fyrirtæki geta einungis öðlast samfélagslegt rekstraleyfi með víðtæku almennu samþykki samfélagins þar sem þau starfa. Skortur á samfélagslegu rekstarleyfi felur í sér aukinn kostnað og alvarlegar tafir á starfseminni .
Það eru engar fyrirliggjandi leiðbeiningar um það hvernig fyrirtæki öðlast samfélagslegt rekstrarleyfi, aðrar en þær að leita samráðs við mismunandi hagsmunaaðila. Skortur á samfélagslegu rekstrarleyfi getur stuðlað að því að fyrirtæki leggi upp laupana. Missi fyrirtæki traust, og þar með samfélagslegt rekstrarleyfi, er það þvingað til að starfa undir strangari lögum og reglugerðum. Það á t.d. við um hrossakjöts hneykslið í Evrópu og aðgerðir yfirvalda í kjölfarið . Samfélagið þvingar því stjórnvöld sem og fyrirtæki til aðgerða.
Samfélagslegt rekstarleyfi felur í raun í sér að ekki sé brotið á vilja fjöldans, af fyrirtækjum og/eða opinberum aðilum sem eiga fjárhagslegra hagsmuna að gæta. Ýmsar leiðir eru færar til að styrkja samfélagslegt rekstrarleyfi, til það mynda sjálfboðavinna starfsmanna og stjórnenda í verkefnum sem eru til hagsbóta fyrir viðkomandi samfélag.
Höfundur: Lára Jóhannsdóttir, höfundur er nýdoktor við viðskiptafræðideild Háskóla Íslands og stjórnarmaður í LSBÍ.