Samfélagsábyrgð fyrirtækja er tiltölulega ungt hugtak, að minnsta kosti í íslenskri umræðu og í hugum flestra hefur það óljósa eða að minnsta kosti ólíka merkingu. Þróun alþjóðlega er sú að fyrirtæki samþætti samfélagsábyrgð við alla starfemi sína. Það er sú þróun sem er að hefjast hér á landi og fyrirtæki sjá tækifæri til aðgreiningar með slíkri stefnumótun.
Kjarni samfélagsábyrgðar fyrirtækja er sá skilningur að fyrirtæki eru hluti af samfélaginu og starfemi þeirra hefur áhrif, á fólk, á umhverfið, efnahagslífið og samfélagið. Þeim ber því að starfa með ábyrgum hætti.
Það hvernig fyrirtæki nálgast samfélagsábyrgð ræðst af mörgu, t.d. eðli starfsemi, fyrirtækjamenningu og hefðum. Hvert fyrirtæki verður að finna sinn takt. Það þýðir að markmiðasetning og stefnumótun í samfélagsábyrgð samræmist hagsmunum og heildarstefnumótun sem nýtist fyrirtækjum í aðgreiningu og eflir trúverðugleika. Jafnframt eru fjölmörg dæmi um að slík vinna hafi dregið úr áhættu og ýtt undir nýsköpun í rekstri.
Til að stefna í samfélagsábyrgð sé trúverðug verður hún að vera sýnileg og gagnsæ. Það er ástæða þess að samfélagsskýrslur hafa verið að ryðja sér til rúms þar sem greint er frá efnahagslegum, félagslegum og umhverfislegum áhrifum starfseminnar. Til að slíkar skýrslur séu samanburðarhæfar er - rétt eins og við framsetningu ársreikninga - nauðsynlegt að viðhafa ákveðna stöðlun. Því hafa verið mótaðir samræmdar aðferðir við framsetningu á upplýsingum og styðjast flest fyrirtæki við aðferðafræði sem kennd er við GRI eða Global Reporting Initiative.
Flest alþjóðleg fyrirtæki hafa gefið út slíkar skýrslur um árabil og þeim íslenskum fyrirtækjum fer fjölgandi sem sjá tækifæri í að efla traust í sinn garð með nýrri nálgun og ítarlegri upplýsingagjöf.
Höfundar: Steingrímur Sigurgeirsson og Þórdís Jóna Sigurðardóttir ráðgjafar hjá Capacent