Að varpa fram nýjum spurningum, skoða nýjar leiðir og líta á óleyst vandamál frá nýju sjónarhorni krefst skapandi hugmyndaafls og markar raunverulegar framfarir í vísindinum (Albert Einstein).
Í dag munu hugmyndasmiðir, á aldrinum 10 -12 ára, varpa fram nýjum spurningum og sínum hugmyndum í Nýsköpunarkeppni grunnskólanemenda. Markmið keppninnar er að hvetja til sköpunargleði meðal grunnskólabarna og skapa vettvang þar sem þau hljóta þjálfun í að koma hugmyndum í framkvæmd.
Vettvangur sem þessi, þar sköpunarkraftur barnanna fær sín notið og frumkvöðlahugsun er efld, er góð fjárfesting til framtíðar. Það vita þeir sem eitt sinn hafa fengið snjalla hugmynd, því hugmyndin ein og sér er oft lítils virði verði hún ekki að veruleika. Þess vegna er mikilvægt að hefja þjálfun í að framkvæma hugmyndir snemma hjá ungu kynslóðinni.
Leiðin frá hugmynd til nýsköpunar krefst þekkingar og færni á fjölbreyttum sviðum. Á næstu dögum munu nemendur njóta leiðsagnar og þjálfunar sérfræðinga með breitt þekkingar- og áhugasvið úr atvinnulífinu og fræðasamfélaginu. Segja má að aðkoma þessara fjölmörgu aðila að keppninni endurspegli ágætlega það umhverfi sem þarf til að nýjar hugmyndir verði að veruleika. Því oftar en ekki markast árangur í nýsköpun af samstarfi þeirra aðila sem koma að verkefninu og hversu vel þeim tekst að miðla þekkingu sinni og auðlindum. Um helgina munu ungu hugmyndasmiðirnir einmitt spreyta sig á þessu sviði og njóta góðs af þekkingu og styrkleikum jafnaldra sinna sem og leiðbeinenda.
Ef til vill verður einn stærsti lærdómur ungu frumkvöðlanna þetta árið sá að nýsköpun spretti úr samstarfi.
Höfundur: Nótt Thorberg, markaðsstjóri Marel á Íslandi og stjórnarmaður í Stjórnvísi.