Kæru félagsmenn í Stjórnvísi.
Ég vil byrja á að óska ykkur gleðilegs árs og þakka fyrir liðið ár sem var á allan hátt gleðilegt og árangursríkt fyrir okkur í Stjórnvísi.
Félagið fagnaði 25 ára afmæli sínu með veglegri afmælishátíð á haustmánuðum og tókst hún einstaklega vel og sýndi styrk félagsins á þessum tímamótum.
Innan raða Stjórnvísi eru núna yfir 1.500 félagsmenn og 260 fyrirtæki. Svo margir hafa ekki verið í félaginu áður.
Flagið er bæði sterkt og stórt - og hefur grónar rætur. Það er vel, því ekki fer alltaf saman að vera stór og sterkur. Styrkleiki félagsins felst í mikilli virkni félagsmanna á faghópafundum.
Í desember síðastliðnum hélt stjórnin fund með fagráði félagsins. Á þessum fundi kom skýrt fram hversu mikilvægir faghóparnir eru fyrir félagið og án þeirra væri Stjórnvísi ekki svipur hjá sjón.
Það er því mikilvægasta verkefni stjórnar að hlúa vel að faghópunum, aðstoða þá eftir þörfum um leið og þeir halda sjálfstæði sínu og frumkvæði.
Stjórnvísi hefur lagt áherslu á það við forráðamenn fyrirtækja að virk þátttaka starfsmanna þeirra í Stjórnvísi gefi þeim færi á hagstæðri símenntun og praktískum umræðum um stjórnun - umræðum sem byggjast á raunhæfum viðfangsefnum.
Nýja árið lofar góðu og margt er á döfinni hjá stjórn og faghópum. Það er von mín að samheldni okkar birtist í aukinni félagsvitund og stolti af því vera félagar í Stjórnvísi.
Höfum það ávallt í huga að Stjórnvísi er áhugamannafélag í eigu félagsmanna og starfar ekki með fjárhagslegan ágóða í huga.
Það hefur verið góður kraftur í stjórn félagsins og faghópunum og það er von mín og vissa að svo verði áfram.
Framkvæmdastjóri félagsins, Gunnhildur Arnardóttir, hefur unnið mjög gott starf og verið faghópunum til halds og trausts og þakka ég henni fyrir vel unnið verk.
Vinnum saman á nýju ári og gerum 2012 að enn einu merkisári í sögu félagsins.
Nýárskveðja,
Jón G. Hauksson, formaður Stjórnvísi.