Á vegum Stjórnvísis hefur verið stofnaður málefnahópur um samfélagsábyrgð fyrirtækja. Félagar í málefnahópnum eru 52 talsins frá fjölmörgum fyrirtækjum. En hvað þýðir hugtakið?
Er ekki nægilegt að reka fyrirtæki samviskusamlega, borga laun og skatta og fara eftir lögum? Þarf eitthvað meira til?
Kjarninn í hugtakinu samfélagsábyrgð hefur einmitt verið að fyrirtæki þurfi að leggja eitthvað aukalega á sig, umfram gildandi lög, til að teljast samfélagslega ábyrg. Það er ekki hægt að setja lög og reglur um allt sem hugsanlega kemur upp í starfi fyrirtækja en það er fjölmargt sem er löglegt en tengist siðferðilegum álitaefnum.
Að stunda smálánastarfsemi er lögleg iðja en er hún siðferðilega verjandi? Það er ekkert í íslenskum lögum sem kveður á um skyldur sveitarfélaga eða ríkisstofnana til að taka tillit til annars en hagstæðasta verðsins í innkaupum. En er það siðferðilega rétt að nota skattfé til að kaupa vörur sem eru framleiddar við afleitar aðstæður? Hvað með að merkja vörur íslenskar sem eru framleiddar erlendis? Bónusar til æðstu stjórnenda í fyrirtækjum hafa verið af mörgum gagnrýndir sem einn af orsakavöldum efnahagskreppunnar í vestrænum samfélögum. Það er ekki bannað að setja upp slíkt kaupaaukakerfi í fyrirtækjum á Íslandi þó því séu sett ákveðin takmörk samkvæmt reglum FME. En er það siðferðilega rétt og/eða tímabært, í ljósi sögunnar?
Þau eru því fjölmörg álitaefnin sem stjórnendur fyrirtækja þurfa að kljást við frá degi til dags og mikilvægt að gefa þessum málum gaum, rétt eins og öðrum þáttum í rekstri fyrirtækja.
Höfundur er stjórnandi málefnahóps Stjórnvísis um samfélagsábyrgð og framkvæmdastjóri Festu, miðstöðvar um samfélagsábyrgð fyrirtækja.