Leiðtogar í landsliðinu
Leiðtogafræði eru fyrirferðamikil innan stjórnunar og oftar en ekki er rætt um mismunandi leiðtogastíla. Ég segi á bókarkápu nýútkominnar bókar Sigurðar Ragnarssonar háskólakennara um forystu og samskipti að tískustraumar samtímans í stjórnun snúist um að straumlínulaga rekstur fyrirtækja og að gefa starfsfólki meiri völd til að taka ákvarðanir. Við þær aðstæður sé hins vegar aldrei eins mikilvægt að hafa stekra leiðtoga sem setja stefnuna, hafa hana skýra, fái fólk til að ganga í sömu átt og hvetji það til dáða að sameiginlegu markmiði.
Íslenska landsliðið keppir núna á Evrópumótinu í handbolta í Serbíu. Nokkuð hefur verið rætt um að leiðtoginn í liðinu sé fjarverandi, þ.e. Ólafur Stefánsson. Guðjón Valur Sigurðsson er núna fyrirliði liðsins. En er Guðjón Valur leiðtogi eða verkstjóri hjá Guðmundi Þórði Guðmundssyni? Þeir eru báðir leiðtogar. Í leiknum á móti Króötum sást vel að Guðjón býr bæði yfir eiginleikum leiðtoga og stjórnanda. Hann hvatti, fór fyrir liðinu, stuðlaði að liðsheild og tók af skarið. Eftir leikinn kom hann vel fyrir í sjónvarpi, svarði fyrir hópinn, útskýrði herfræðina, var bjartsýnn og uppbyggilegur þótt fyrsti leikurinn hefði tapast naumlega. Ekki efa ég að utan vallar er Guðjón prímusmótor sem ýtir undir jákvæð og uppbyggjandi samskipti leikmanna - og að þeir leggist á eitt. Hann er góð fyrirmynd.
Um íslenska landsliðið í knattspyrnu hafa blaðamenn sagt að þar vanti hinn sterka leiðtoga, utan vallar sem innan, og það sé hluti af vandanum. Þetta leiðtogavandamál eigi líka við um 21 árs liðið.
Það er mikilvægt að þora að vera öðruvísi. Guðjón Valur reynir ekki að vera Ólafur Stefánsson. Þeir hafa mismunandi stíl. Báðir bera það með sér að vera leiðtogar - sem og auðvitað Guðmundur Þórður Guðmundsson þjálfari liðsins. Einhver segði að hann væri hinn eini sanni leiðtogi liðsins. Hann væri liðið. Hann hefur náð afburðagóðum árangri. Hefur skýra stefnu, vit á því sem hann er að gera og lætur leikmenn ganga í sömu átt. Leiðtogar liðsins í Serbíu eru þess vegna tveir.