Kæru félagsmenn í Stjórnvísi.
Starfið í Stjórnvísi er að komast á skrið aftur eftir sumarfrí.
Staða félagsins er sterk og það er mikill einhugur í stjórninni um að viðhalda því kraftmikla starfi faghópa sem var svo áberandi síðasta vetur.
Ég hvet alla félagasmenn til að mæta á fund stjórnar með forráðamönnum faghópa næstkomandi fimmtudag, 1. september, að Ofanleiti 2. Fundurinn hefst kl. 15:30 og munu stjórn og faghópar ræða um það sem verður efst á baugi í félaginu næstu mánuði.
Þetta er sams konar fundur og var haldinn í byrjun september í fyrra og gafst hann einstaklega vel - auk þess sem ánægjulegt var að sjá hversu margir almennir félagar sáu sér fært að mæta.
Stjórnvísi fagnar 25 ára afmæli á þessu ári og er við hæfi að halda upp á þau tímamót á þessu starfsári.
Rétt er að geta þess að á síðasta stjórnarfundi tilkynnti einn stjórnarmanna, Einar Skúli Hafberg, að hann væri að flytjast til Noregs og að hætta í stjórninni.
Einari Skúla eru þökkuð afar vönduð og góð störf fyrir félagið - ekki síst hefur hann látið vef félagsins til sín taka.
Ég hlakka til að sjá ykkur sem flest á fundinum í Ofanleiti nk. fimmtudag.
Dugmikið og gefandi starf er framundan.
Með kveðju,
Jón G. Hauksson, formaður stjórnar Stjórnvísi.