Kæru félagsmenn!
Stjórnunarverðlaun Stjórnvísi verða veitt í glæsilegu hófi í Turninum í Kópavogi á morgun, þriðjudaginn 12. mars. Þetta er einn af helstu viðburðum félagsins á hverju ári og hvet ég félagsmenn til að fjölmenna á þessa glæsilegu hátíð. Aðgangur er ókeypis og veitingar í boði félagsins. Forseti Íslands veitir verðlaunin og flytur ávarp. Þrír kunnir stjórnendur flytja fyrirlestra á hátíðinni. Þeir eru Björgólfur Jóhannsson, forstjóri Icelandair Group og nýkjörinn formaður Samtaka atvinnulífsins, Janne Sigurðsson, forstjóri Alcoa-Fjarðaáls, og Stefán Eiríksson, lögreglustjóri á höfuðborgarsvæðinu. Ekki verða pallborðsumræður en gestir geta beint spurningum til fyrirlesara.
Þetta er fjórða árið í röð sem Stjórnunarverðlaun Stjórnvísi eru veitt og hefur forseti Íslands, Ólafur Ragnar Grímsson, afhent þau frá upphafi auk þess að flytja ávarp um sína sýn á íslenskt atvinnulíf.
Mikill kraftur hefur annars verið í starfi faghópa í vetur og er augljóslega mikill byr með félaginu. Margir hafa lagt hönd á plóginn og vil ég þakka öllum fyrir hið kraftmikla starf í félaginu. Þungamiðjan í starfinu eru faghóparnir og án þeirra væri Stjórnvísi lítils virði.
Ég hvet ykkur enn og aftur til að mæta í Turninn á morgun kl. 16:00. Fjölmörg fyrirtæki styrkja hátíðina og þakkar Stjórnvísi fyrir þann stuðning.
Kveðja,
Jón G. Hauksson, formaður Stjórnvísi.