Fréttatilkynning- Niðurstöður Íslensku ánægjuvogarinnar 2008
Sparisjóðurinn í fyrsta sæti
Í dag voru kynntar niðurstöður Íslensku ánægjuvogarinnar en þetta er í tíunda sinn sem ánægja viðskiptavina fjölda íslenskra fyrirtækja er mæld. Að þessu sinni var ánægja viðskiptavina 17 fyrirtækja mæld en það eru heldur færri fyrirtæki en undanfarin ár. Niðurstöður byggja á svörum um 4300 manns eða um 250 viðskiptavina hvers fyrirtækis.
Guðbjörg Andrea Jónsdóttir rannsóknarstjóri hjá Capacent Gallup kynnti niðurstöðurnar og sagði m.a. að mikil fylgni væri milli ánægju og tryggðar viðskiptavina og að tengsl tryggðar og afkomu fyrirtækis væru mjög sterk. Því væri til mikils að vinna að hafa viðskiptavini ánægða. Gjaldþrot bankanna setti mark sitt á mælingar ársins 2008 en könnun meðal viðskiptavina bankanna hófst á sama tíma og bankarnir fóru í þrot. Mæling á ánægju viðskiptavina banka og sparisjóða var því endurtekin í lok nóvember og er stuðst við niðurstöður seinni mælingarinnar.
Íslenska ánægjuvogin lækkar um rúmlega 4 stig á milli áranna 2007 og 2008, fer úr 66,4 í 62,0 í heildina. Nokkur lækkun er á öllum atvinnugreinum sem mældar eru en mest á bankamarkaði um rúm 13 stig. Mikillar svartsýni gætir meðal svarenda þegar horft er til efnahagsástands þjóðar¬innar og eigin fjárhagsstöðu næstu 12 mánuði og eru Íslendingar töluvert svartsýnni en aðrir Norðurlandabúar.
Helstu niðurstöður
Í flokki banka og sparisjóða, var Sparisjóðurinn í fyrsta sæti með 78,5 stig. Sparisjóðurinn hefur alltaf verið í fyrsta sæti ef frá er talið árið 2006 þegar SPRON náði fyrsta sætinu. Mest hækkun á milli ára er á einkunn Byrs sem er í öðru sæti með 77,7 stig en SPRON er í þriðja sæti með 73,6. Mikill munur er nú á einkunnum sparisjóðanna, þ.e. Sparisjóðsins, SPRON og Byrs, annars vegar og viðskiptabankanna, Glitnis sem var með 57,9, Kaupþings sem var með 55,9 og Landsbankans sem rak lestina með 51,9 stig hins vegar. Meðalánægjuvogar¬einkunn spari¬sjóðanna er nú 77,0 stig samanborið við 55,1 stig hjá viðskiptabönkunum
Í flokki tryggingafélaga var Tryggingamiðstöðin í fyrsta sæti með 68,7 stig, nánast sömu einkunn og á síðasta ári. Tryggingamiðstöðin hefur alltaf verið í fyrsta sæti í þessum flokki ef frá er talið árið 2004 þegar VÍS var í fyrsta sæti. Í öðru sæti var Vörður með 65,4 stig og lækkaði lítillega á milli ára. Sjóvá, eina tryggingafélagið sem hækkar lítillega á milli ára var í þriðja sæti með 64,9 stig en í fjórða og síðasta sæti var VÍS sem lækkaði um tæp 6 stig á milli ára og var nú með 60,9 stig.
Í flokki rafveita var Hitaveita Suðurnesja í fyrsta sæti, sjöunda árið í röð með 69,8 stig, tæpum tveimur stigum meira en árið 2007. Fallorka var í öðru sæti með 65,1 stig og lækkar nokkuð frá fyrri mælingum. Orkuveita Reykjavíkur hækkar um 1,2 stig á milli ára og er í þriðja sæti með 64,6 stig. Lestina rekur Orkusalan með 53,1 stig og lækkar um 7,6 stig.
Í flokki smásöluverslana var ÁTVR í fyrsta sæti með 66,2 og hækkar um 2,3 stig á milli ára. BYKO var í öðru sæti með 59,4 stig, lækkar um tæp 6 stig á milli ára og í þriðja sæti var Húsasmiðjan með litlu lægri einkunn, 58,8 og lækkaði um rúm 4 stig á milli ára.
Einungis tvö fyrirtæki hækka um meira en tvö stig á milli ára, ÁTVR og Byr sparisjóður sem hækkar um 4,7 stig. Sex fyrirtæki lækka hins vegar um meira en fimm stig, en það eru BYKO og VÍS, Orkusalan og viðskiptabankarnir þrír. Kaupþing lækkar um 13 stig á milli ára, Glitnir um 14,9 og Landsbankinn um 20,7 stig.
Íslenska ánægjuvogin
Íslenska ánægjuvogin er félag, sem Samtök iðnaðarins, Stjórnvísi og Capacent Gallup standa að hvað varðar þátttöku í Evrópsku ánægjuvoginni. Markmið verkefnisins er að láta fyrirtækjum í té samræmdar mælingar á ánægju viðskiptavina en einnig nokkrum öðrum þáttum, sem hafa áhrif á hana, s.s. ímynd, mat á gæðum, og tryggð viðskiptavina. Mælingin er talin mjög mikilvæg þar sem rannsóknir hafa leitt í ljós að því ánægðari sem viðskiptavinir fyrirtækis eru því betri afkomu getur það gert sér vonir um.
Nánari upplýsingar veita Davíð Lúðvíksson hjá SI í síma 5910114/8246114, netfang david@si.is og Guðbjörg Andrea Jónsdóttir hjá Capacent Gallup í síma 5401033/8601033, netfang gaj@capacent.is.