Hvernig líður fólkinu á þínum vinnustað?
Vissir þú að inniloft hefur áhrif á heilsufar og afköst starfsfólks? Og að algengustu kvartanir vegna vinnuumhverfis tengjast innilofti og gæðum þess? Umhverfi innandyra hefur bein áhrif á einbeitingu, afköst og á vinnugleði almennt. Rannsóknir sýna að með því að auka gæði innilofts þá aukast afköst til muna.
Slæm loftgæði hafa mjög ólík áhrif á einstaklinga, en algengt er að fólk finni fyrir einkennum eins og höfuðverk, húðroða, ertingu í nefi, augum og hálsi og einbeitingaskorti, án þess að tengja það beint við slæm loftgæði.
Það eru margir samverkandi þættir sem hafa áhrif á loftgæði, s.s. hita- og rakastig, loftræsing, gæði útilofts, umbúnaður í vinnurýmum, húsgögn, raftæki, þrif og hreinsiefni svo fátt eitt sé nefnt. Ókleift er í raun að mæla loftgæði beint með mælitækjum, þó vissulega sé hægt að mæla hita- og rakastig og koltvísýring á einfaldan hátt.
Besta leiðin og sú sem gefur raunhæfustu niðurstöðuna er mat starfsfólks á sinni líðan. Til eru stöðluð erlend próf sem lögð eru fyrir starfsfólk sem tengjast upplifun, hugsanlegum einkennum og óþægindum m.t.t. loftgæða, aðbúnaðar og almennra vinnuaðstæðna.
Reynslan er sú að þegar orsakasamhengi er orðið ljóst, þá er iðulega hægt að bæta gæði innilofts með einföldum aðgerðum sem snúast oft um smávægilegar breytingar á starfsháttum. Þannig má bæta líðan og afköst starfsfólks á einfaldan hátt.
Eftir Halldóru Hreggviðsdóttur, framkvæmdastjóra ráðgjafarfyrirtækisins Alta.