Gæðamál hjá Landmælingum Íslands
Árið 2005 var mótuð gæðastefna hjá Landmælingum Íslands (LMÍ). Síðan þá hefur markvisst verið unnið að því að bæta gæði í verkefnum stofnunarinnar. Gæðastefnan hefur tekið breytingum í gegnum tíðina og stöðugt er unnið að því að finna út hvaða aðferðir henti vel til þess að auka skilvirkni og gagnsæi í daglegri vinnu.
Hluti af ferlinu var uppbygging og innleiðing nýs gagnaskipulags því hjá Landmælingum Íslands er haldið utan um flókna gagnagrunna sem innihalda mikilvægar og nákvæmar upplýsingar um Ísland.
Margir opinberir aðilar vinna að öflun og vinnslu landupplýsinga og því er vel skilgreint skipulag landupplýsinga mikilvægt. Það kemur í veg fyrir að margir séu að afla sömu gagna og ýtir undir samnýtingu þeirra. Aðgengi að gögnunum verður betra og hlutverkaskipting skýrari.
Árið 2011 voru samþykkt lög um grunngerð fyrir stafrænar landupplýsingar en þau tengjast INSPIRE-tilskipun Evrópusambandsins. LMÍ fara með framkvæmd laganna fyrir hönd umhverfis- og auðlindaráðuneytisins og er markmiðið þeirra að byggja upp aðgengi að stafrænum landupplýsingum á vegum stjórnvalda. Samkvæmt lögunum er grunngerð fyrir stafrænar landupplýsingar: „Tækni, stefnur, staðlar og mannauður sem þarf til að afla stafrænna landupplýsinga, vinna úr þeim, varðveita, miðla og auðvelda notkun þeirra.“
Með því að koma grunngerðinni á fót gefast mörg tækifæri til umbóta. Hluti af því er að innleiða skipulögð vinnubrögð samkvæmt kröfum alþjóðlegra staðla t.d. ISO 9001 gæðastaðalsins og um leið auka gæði landupplýsinga á Íslandi.
Ákveðið hefur verið að sækja um gæðavottun fyrir starfsemi LMÍ samkvæmt ISO 9001 gæðastaðlinum í byrjun næsta árs.
25.11.13
Anna Guðrún Ahlbrecht
Gæðastjóri hjá Landmælingum Íslands