Í dag, 23. febrúar 2012, voru kynntar niðurstöður Íslensku ánægjuvogarinnar 2011 og er þetta þrettánda árið sem ánægja viðskiptavina íslenskra fyrirtækja er mæld með þessum hætti. Að þessu sinni eru niðurstöður birtar fyrir 26 fyrirtæki í 9 atvinnugreinum og byggja niðurstöður á 200-700 svörum viðskiptavina hvers fyrirtækis. Tvær nýjar atvinnugreinar eru mældar í ár, flugfélög og matvöruverslanir.
Hæstu einkunn allra fyrirtækja hlýtur Nova, 73,4 stig af 100 mögulegum. Nova er því heildarsigurvegari Íslensku ánægjuvogarinnar árið 2011 og þar með einnig sigurvegari í flokki farsímafyrirtækja. Í fyrsta sæti í flokki banka er Íslandsbanki með einkunnina 59,7 og í flokki tryggingafélaga er Tryggingamiðstöðin með hæstu einkunnina, 69,0. HS orka er í fyrsta sæti raforkusala með einkunnina 63,3 og ÁTVR er efst í flokki smásölufyrirtækja með einkunnina 72,4. Atlantsolía er efst á meðal olíufélaga með einkunnina 70,1 og Byko er með hæstu einkunnina meðal mældra byggingavöruverslana, 60,1. Bónus er í fyrsta sæti í flokki matvöruverslana með einkunnina 65,3 og Icelandair sigrar í flokki flugfélaga með einkunnina 68,4.
Einkunn flestra geira og fyrirtækja hækkar á milli mælinga. Mesta hækkun atvinnugreinar milli ára er hjá olíufélögum, þar sem einkunn allra félaga hækkar frá árinu á undan. Þar er einnig að finna hástökkvara ársins, Orkuna, en ánægjuvogareinkunn fyrirtækisins hækkar um tæp 6 stig milli ára.
Hérna má sjá myndir frá Uppskeruhátíð Íslensku ánægjuvogarinnar 2011
http://www.facebook.com/media/set/?set=a.291338767600747.69266.110576835676942&type=3
Íslenska ánægjuvogin er í eigu Stjórnvísi, Samtaka iðnaðarins og Capacent. Nánari upplýsingar veita Davíð Lúðvíksson hjá SI í síma 5910114/8246114, netfang david@si.is og Jóna Karen Sverrisdóttir hjá Capacent Gallup í síma 5401018/8601018, netfang jona.sverrisdottir@capacent.is. Upplýsingar um Íslensku ánægjuvogina má finna á: http://stjornvisi.is/anaegjuvogin