Kæru Stjórnvísifélagar!
Ég hvet ykkur til að mæta á aðalfund félagsins sem haldinn verður á Hótel Borg í dag.
Stjórnvísi hefur aldrei verið fjölmennara og líklegast aldrei sterkara en á þessu sarfsári og bera fundir á vegum faghópa þess merki. Núna þykja faghópafundir á bilinu 50 til 100 manns ekki lengur tiltökumál. Félagið er þekktara en áður á meðal forráðamanna fyrirtækja sem gera sér grein fyrir að þátttaka starfsmanna í félaginu er ódýrasta símenntunin á markaðinum.
Aðalfundur hvers félags á ætíð að vera í hávegum hafður og þess vegna er við hæfi í jafnsterku félagi og Stjórnvísi að sem flestir mæti og taki .þátt í umræðunni. Glæsileg og yfirgripsmikil ársskýrsla verður lög fram á fundinum, auk þess sem kosið verður í stjórn, varastjórn og fagráð. Þætti mér afar vænt um að sjá sem flesta í dag.
Boðið verður upp á tvo spennandi fyrirlestra eftir venjuleg aðalfundarstörf. Veitingastjóri hótelsins, hinn þekkti Völli Snær, ræðir um veitingar og stjórnun í alþjóðlegu samhengi og Ásgeir Jónsson, lektor við HÍ og efnahagsráðgjafi hjá Gamma, fjallar um fasteignamarkaðinn og horfur næstu árin.
Að fundi loknum býðst gestum að fara í skoðunarferð um þetta sögufræga hótel sem gengið hefur í gegnum endurnýjun lífdaga og er allt hið glæsilegasta.
Ég hverf núna úr stjórn eftir fjögurra ára setu, þar af síðustu tvö árin sem formaður. Þetta hefur verið einstaklega ánægjulegur tími fyrir mig og forréttindi að hafa kynnst svo mörgu og áhugasömu fólki um stjórnun.
Gangi félaginu allt í haginn á komandi árum.
Höfum eldmóð, leikgleði og ánægju að leiðarljósi í dag sem aðra daga.
Sjámumst á Borginni.
Jón G. Hauksson, formaður Stjórnvísi.