Það er tilhlökkkun í félögum Stjórnvísi sem nú hefja nýtt starfsár af krafti sem mun vafalaust verða viðburðarríkt og skemmtilegt.
Kynning á nýrri stjórn og faghópum félagsins fer fram í Nauthól þann 4. September þar sem kynntar verða áherslur og dagskrá haustsins. Ég vil hvetja félagsmenn til að mæta og kynna sér hana, sýna sig og sjá aðra, enda eitt af markmiðum félagsins að virkja tengslanet þeirra.
Félagið er sterkt og hefur verið að sækja í sig veðrið á undanförnum árum, viðburðir hafa verið vel sóttir og ráðstefnur á vegum félagsins verið til mikillar fyrirmyndar. Við höfum markvisst verið að efla faghópastarfið og hefur það blómstrað. Þá hafa bæst við nýjir hópar, aðrir hafa sameinast, en markmið allra er að veita faglega, eftirsóknarverða og góða símenntun á sviði stjórnunar.
Mikill hugur er í meðlimum félagsins og metnaður að gera vel, stjórnendur fyrirtækja sjá hag í því að vera meðlimir og starfsmenn þeirra kunna vel að meta það fjölbreytta úrval funda sem boðið er uppá hverju sinni í mismunandi faghópum. Auk þessa eru fjöldamargir einstaklingar og námsmenn sem nýta sér það þekkingarsamfélag sem Stjórnvísi er.
Styrkur félagsins felst í því að vera eign félagsmanna sjálfra og hugsjónum þess að efla þekkingu þeirra.
Með kveðju,
Teitur Guðmundsson, formaður Stjórnvísi