Farðu í mat!
Það kannast flestir við þá tilfinningu að koma til vinnu að nýju eftir gott sumarfrí. Vissulega bíður margt afgreiðslu en eftir frí getum við tekist á við nánast hvað sem er. Við erum uppfull orku og krafti og höfum jafnvel fengið ótrúlega góðar hugmyndir í fríinu sem við erum spennt að hrinda í framkvæmd (Þeir sem ekki kannast við þessa tilfinningu ættu kannski að íhuga að taka lengra sumarfrí eða skipta um vinnu!). Nokkur fyrirtæki erlendis sáu sér leik á borði eru farin að bjóða starfsfólki meira frí en lög gera ráð fyrir til að auka afköst. Það er vissulega ein leið til að viðhalda „eftirsumarleyfisorkuskotinu“ en til eru einfaldari og ódýrari leiðir.
Tony Schwartz og rannsóknarteymi hans í The Energy Project, sérhæfa sig í því að viðhalda háu orkustigi starfsmanna fyrirtækja og auka þar með árangur þeirra. Þau hafa sýnt fram á að með einföldum aðgerðum geti fyrirtæki og starfsmenn margfaldað afköst og aukið starfsánægju svo um munar. Hér eru örfá einföld ráð frá Tony og hans fólki:
- Farðu alltaf í mat - stattu upp frá vinnunni, farðu út af vinnustaðnum, teygðu úr þér og talaðu við fólk um eitthvað annað en vinnuna.
- Hreyfðu þig - fátt viðheldur orkunni betur en regluleg líkamleg áreynsla.
- Borðaðu reglulega yfir daginn - hollar, litlar máltíðir til að koma í veg fyrir orkuleysi og slappleika sökum of- eða sykuráts.
- Gefðu þér 90 mínútur - byrjaðu alltaf daginn á því að verja 90 mínútum í að skipuleggja verkefni þín. Þannig tryggir þú vinnu við mikilvægustu verkefnin hverju sinni og þar með aukinn árangur.
Hugsaðu þér...það er ekki flóknara en þetta að koma meiru í verk! Því ekki að prófa?
Unnur Valborg Hilmarsdóttir, stjórnendamarkþjálfi hjá Vendum ehf.