Á ferðalagi okkar um lífið erum við alltaf að læra eitthvað nýtt og spennandi og mismunandi hvaða fræði henta okkur á mismunandi tímaskeiðum í lífi okkar. Ég kynntist spekinni um Fiskinn, Fish philosophy, fyrir rúmum áratug, heillaðist strax og trú mín á Fisknum hefur eingöngu aukist með árunum. Ég hef oft spurt mig að því af hverju þessi fræði henta mér? Það eru óteljandi ástæður fyrir aðdáun minni en það sem stendur upp úr er einfaldleikinn. Mannleg samskipti eru flókin, og oft á tíðum erfið og allt of oft flækjum við sjálf einfalda hluti. Fiskurinn hjálpar okkur að meta einfaldleikann og að njóta lífsins, eins og það er í dag. Þeir sem tileinka sér lífsspeki Fisksins muna eftir því að leika sér, gera daginn eftirminnilegan, þeir eru til staðar og síðast en ekki síst þá velja þeir sér viðhorf. Þetta hljómar einfalt en er auðvelt að tileinka sér þessa lífsspeki? Við erum mannleg, förum í gegnum sorgir og gleði, sigra og ósigra og oft á tíðum finnst okkur lífið ekki sanngjarnt.
Við höfum hins vegar alltaf val um það hvernig við bregðumst við þeim aðstæðum sem við erum í hverju sinni. Lífið er svo sannarlega ekki alltaf auðvelt en lífspeki Fisksins hjálpar okkur að njóta ferðalagsins.
Víða í skólakerfinu er unnið eftir frábæru kerfi sem byggir á fimm grunnþörfum okkar. Grunnþarfirnar fimm eru undirstöðuþáttur í uppbyggingu og einstaklingarnir hvattir til að þekkja þarfir sínar. Það að þekkja þarfir sínar er grundvöllur þess að við skiljum hegðun okkar og getum breytt henni til betri vegar. Ein af grunnþörfum okkar er GLEÐI en oft þegar við verðum ,,stór“ einblínum við á að haga okkur eftir aldri, halda virðingu og faglegu viðmóti. Fiskurinn gefur okkur leyfi til að leika okkur, hann ýtir undir ánægju og byggir upp grunnþarfir okkar svo við getum notið okkar í starfi og í leik. Þekkir þú þínar grunnþarfir?