Hugsum okkur að maður kaupi sjoppu fyrir tíu milljónir. Hann leggur sjálfur eina krónu í púkkið en fær afganginn lánaðan vaxtalaust hjá frænda sínum.
Eftir árið skilar sjoppan svo krónu í hagnað sem samsvarar 100% arðsemi eigin fjár.
Þetta ýkta dæmi sýnir að arðsemi eigin fjár getur verið blekkjandi mælikvarði. Oft er arðsemi eigna, sem einnig nefnist arðsemi heildarfjármagns, þ.e. alls þess fjár sem lagt er í reksturinn, miklu betri mælikvarði. Arðsemi eigna í dæminu að ofan er 0,00001%, sem sýnir auðvitað að betra hefði verið fyrir eigandann ef hann hefði fengið sér annað að sýsla við, hvað þá fyrir frændann.
Almennt má segja að réttara sé að horfa á arðsemi eigna ef lánskjör ráðast ekki á markaði. Þetta á til dæmis við þegar fyrirtæki lánar sjálft til eigin framkvæmda. En það á ekki síður við ef eigandinn sjálfur eða þriðji aðili ábyrgist lánið, til dæmis ríkið, sveitarfélög - eða bara velviljaðir frændur.
Þegar arðsemi eigna er metin þarf að gæta að því að meta rétt fjárbindingu í rekstrinum. Ef horft er á bókfært virði eigna, að frádregnum afskriftum, getur arðsemi eigna virst aukast eftir því sem líður á líftíma fjárfestingarinnar. Því er mikilvægt að reikna hana ávallt sem hlutfall af markaðsvirði eigna, en ekki bókfærðu virði. Sé þessa gætt sýnir arðsemi eigna betur hversu arðsamt verkefni eða fyrirtæki er sem slíkt en arðsemi eigin fjár, sem sýnir aðeins hvað rennur til hluthafanna og er því aðeins gagnleg ef lánskjör ráðast á markaði. Fullyrða má að í opinberum rekstri skuli ávallt miða við arðsemi eigna, nema um hreina verkefnafjármögnun sé að ræða.
Þorsteinn Siglaugsson