Ég ætla mér að verða betri maður á árinu 2012, bæði betri og léttari. Hvað með þig?
Fyrirtæki geta líka strengt áramótaheit - stefnumótandi loforð um bót og betrun. Ekki þarf að mæta í líkamsrækt. Ræktin á að fara fram innan veggja fyrirtækisins og huga þeirra sem þar starfa. Áramótaheitin felast í að setja markmið, stefna að þeim og meta árangur.
Margir íslenskir stjórnendur hafa kynnt sér hvað felst í samfélagslegri ábyrgð fyrirtækja og er það vel. Ég vil meina að ekkert fyrirtæki geti hunsað þá ábyrgð til langs tíma. Þar erum við ekki einvörðungu að ræða um fjárhagslega og lagalega ábyrgð fyrirtækja, heldur líka siðferðilega og mannúðlega; hluta þeirrar samfélagslegu skyldna sem ætlast er af hálfu samfélagsins. Sjálfbærni og gegnsæi eru nefnilega ekki lengur bara tískuorð til nota á hátíðarstund.
Mörg erlend fyrirtæki hafa sniðið rekstur sinn að leiðbeiningum eða stöðlum á við UN Global Compact, Global Social Compliance Programme (GSCP) og ISO 26000. Unnið er að íslenskun þess síðastnefnda. Uppbygging hans svipar til bæði ISO 9001 og 14001 staðlanna, en hann er þó ekki til vottunar.
Mat á árangri verkefna innan ramma samfélagslegrar ábyrgðar er órjúfanlegur hluti heildarmyndarinnar. Þau fyrirtæki sem má taka til fyrirmyndar greina frá árangrinum í ársskýrslum sínum. Sú samantekt er ekki gerð til að vera montplagg með upptalningu styrkveitinga eða gjafa til mannúðarmála, heldur til að skýra frá því með hreinskiptum hætti hvernig fyrirtækinu tekst til.
Hvatningin er skýr. Tíminn er núna. Ekki láta ársskýrsluna snúast einungis um fjárhaglega velgengni, heldur líka velgengni í því samfélagi sem við lifum öll í.
Haraldur U. Diego er hugmyndabóndi.