Ánægja og arðsemi fara saman í viðskiptum. Ánægðir viðskiptavinir koma aftur og stefna hvers fyrirtækis hlýtur að vera að eignast viðskiptavini fyrir lífstíð. Það er sterk fylgni á milli ánægju viðskiptavina og viðskiptatryggðar. Þess vegna er hægt að beita fjárhagslegum rökum fyrir því innan allra fyrirtækja að leggja mikla áherslu á að góða þjónustu og ánægða viðskiptavini. Tryggir og ánægðir viðskiptavinir eru sömuleiðis bestu auglýsendurnir og laða að nýja viðskiptavini þegar þeir miðla af jákvæðri reynslu sinni af fyrirtækinu. Mörg fyrirtæki verja þess vegna meiri tíma og krafti í að grafast fyrir og skilja í hverju ánægja viðskiptavina þeirra liggur og finna leiðir til að auka hana.
Það er ekki nóg að viðskiptavinir séu sæmilega eða frekar ánægðir. Keppikeflið hlýtur að vera mjög ánægðir viðskiptavinir til að tryggja mesta viðskiptatryggð sem aftur skilar sér í ánægjulegri tölum í ársreikningnum; þ.e. auknum hagnaði og traustari framtíðartekjum. Verðmæti allra fyrirtækja liggur fyrst og fremst í framtíðartekjum þess.
Það er útilokað að gera viðskiptavini ánægða ef hugur fylgir ekki máli; starfsmenn verða að vera sjálfir ánægðir til að geta gefið eitthvað af sér. Þess utan helst fyrirtækjum betur á ánægðum starfsmönnum sem þekkja og skilja þarfir og væntingar viðskiptavina og geta uppfyllt óskir þeirra og veitt þeim fyrirtaks þjónustu.
Í íslensku ánægjuvoginni er ánægja viðskiptavina stærstu fyrirtækja á Íslandi í nokkrum atvinnugreinum mæld einu sinni á ári. Stjórnvísi, Samtök iðnaðarins og Capacent Gallup hafa staðið sameiginlega að þessum mælingum undanfarin tólf ár; eða frá árinu 1999. Markmið Íslensku ánægjuvogarinnar er að vera með samræmdar mælingar á ánægju viðskiptavina.
Gamalt máltæki segir: Skoðaðu alla hluti frá hinni björtu hlið! Það ættu fyrirtæki að kappkosta; vitandi að ánægðir viðskiptavinir og góðir starfsmenn skapa mestu framtíðartekjurnar.