Allir með!
Það er þekkt fyrirbæri að þau fyrirtæki sem skara frammúr byggja öllu jöfnu á skýrum markmiðum og stefnu. Viðskiptavinir þeirra eru í öndvegi. Skipulagsheildin er reiðubúin að mæta breytingum hratt og örugglega, stjórnendur deila upplýsingum og eru opinskáir gagnvart starfsfólki sínu og hampa hæfileikum þess. Starfsmenn sýna jákvæðni og hrósa reglubundið samstarfsfólki sínu og hvetja það til dáða. Fyrirtækið hugsar vel um heilsu einstaklingsins , býður honum verkefni við hæfi og síðast en ekki síst skilgreinir það vel ábyrgð í verkum og verkferlum.
Þessi atriði hljóma kannski mjög einföld, en til þess að ná sem lengst verða stjórnendur og starfsmenn að leggja sig alla fram um að ná þeim. Það þarf að skapa liðsanda þar sem allir eru með og finna að þeir skipta máli, byggja upp andrúmsloft þar sem er lögð áhersla á lausnir í stað vandamála. Mikilvægt er að fagna þeim áföngum sem nást og sýna í verki þakklæti fyrir þann árangur sem samstillt átak skilar.
Það má líkja þessu við þá hugmyndafræði sem tíðkast í stríði og hjá hermönnum þar sem enginn verður skilinn eftir, einn fyrir alla og allir fyrir einn! Ég geri mér grein fyrir því að þetta hljómar klisjulega en þetta einfaldlega virkar og stjórnendur þurfa að átta sig á því hvernig þeir ná þessum markmiðum. Það þurfa þeir að gera fyrir utan hin hefbundnu verkefni þegar kemur að stjórnun og skipulagi í rekstri fyrirtækja. Leiðin liggur í gegnum mannauð fyrirtækjanna sem er ætíð þeirra verðmætasta eign. Hugsum vel um fólkið okkar, gefum því tækifæri, nýtum orku þess og hugmyndir, sýnum virðingu og hlustum á það því þannig stillum við saman strengina og náum árangri.
Höfundur:
Teitur Guðmundsson, framkvæmdastjóri hjá Heilsuvernd og stjórnarmaður í Stjórnvísi