Kæru félagsmenn í Stjórnvísi,
velunnarar,
háttvirtu fyrirlesarar,
góðir ráðstefnugestir.
TIL HAMINGJU MEÐ DAGINN.
Þetta er fallegur dagur; merkisdagur í sögu félagsins. 25 ára.
Það er ástæða til að fagna slíkum tímamótum með góðri afmælisráðstefnu. Enda segjum við að þessi ráðstefna sé blanda af fræðum og fögnuði. Við höfum fengið til liðs við okkur góða fyrirlesara:
Brynju Guðmundsdóttur, forstjóra Gagnavörslunnar.
Árna Odd Þórðarson, forstjóra Eyris fjárfestingarfélags og stjórnarformann Marels.
Guðnýju Rósu Þorvarðardóttur, framkvæmdastjóra Parlogis
og síðast en ekki síst Tómas Má Sigurðsson, forstjóra Alcoa á Íslandi og formann Viðskiptaráðs.
Horft verður til framtíðar í fyrirlestrum dagsins.
Yfirskriftin er:
Ísland 2015 - forgangsverkefni stjórnandans.
Vonandi verður framtíðarsýnin og Ísland árið 2015 blanda af fræðum, framtakssemi og fögnuði.
Stjórnvísi hét upphaflega Gæðastjórnunarfélag Íslands og það var einmitt í tíð Guðrúnar Ragnarsdóttur sem formanns félagsins sem nafninu var breytt í Stjórnvísi.
Það er mikill heiður að Guðrún, sem er framkvæmdastjóri Lánasjóðs íslenskra námsmanna, flytji hátíðarávarp þessarar afmælisráðstefnu.
Góðir gestir!
Það er í sjálfu sér enginn munur á gæðastjórnun og venjulegri stjórnun. Venjuleg stjórnun á að vera gæðastjórnun. Stjórnun snýst um aga, virðingu og gæði.
Oft er spurt:
Hvað er Stjórnvísi?
Stjórnvísi er félag þar sem kjarnastarfið fer fram í fjölda faghópa á hinum ýmsu sviðum stjórnunar.
Stjórnvísi fæst við nýjustu stefnur og strauma í stjórnun - og af því leiðir að tengslin við háskólasamfélagið og fyrirtækin í landinu eru mikil.
Stjórnvísi er líka félag sem stendur fyrir almennum ráðstefnum, viðburðum og verðlaunum um stjórnun.
Á síðasta starfsári voru haldnar átta ráðstefnur og fluttu 135 fyrirlesarar erindi á ráðstefnum og fundum faghópa - og voru gestir yfir 2.600 talsins á viðburðum félagsins.
Stjórnvísi er stærsta stjórnunarfélag á Íslandi með yfir 1.200 félagsmenn og innan raða þess eru núna yfir 240 fyrirtæki.
Stjórnvísi er áhugamannafélag í eigu félagsmanna og starfar ekki með fjárhagslegan ágóða í huga.
Félagið er opið öllum sem hafa áhuga á stjórnun; eins og stjórnendum, sérfræðingum, nemendum og öðrum áhugamönnum um stjórnun.
Ég hef stundum sagt að starfið í faghópum félagsins lyfti hinum venjulega starfsdegi félagsmanna upp í hærri hæðir.
Faghópafundur að morgni sem byrjar á heimsókn í fyrirtæki þar sem sérfræðingar þess miðla af góðum vinnubrögðum í stjórnun með raunverulegum dæmum er ekki aðeins byrjun á góðum degi - heldur þekking sem smitar út frá sér þegar félagsmenn koma „heim til vinnu“ í sínum fyrirtækjum.
Stjórnun og rekstur fyrirtækja er ekki eitthvað sem er endanlegt - það er viðfangsefni hvers dags. Vegna þess að stjórnun snýst um fólk og mannlega þætti.
Við erum ekki búin til úr stáli og steypu - þótt við séum auðvitað heilsteypt. Í okkur rennur blóð - og við höfum tilfinningar sem koma fram í daglegum samskiptum á vinnustöðum; góðum sem slæmum.
Þegar ég var ráðstefnustjóri á stórri ráðstefnu hjá Gæðastjórnunarfélaginu fyrir nákvæmlega nítján árum undirbjó ég mig m.a. með því að spyrja hárskerann minn að því hvað gæðastjórnun væri.
Ræðir maður ekki alltaf við hárskerann sinn.
Hann svaraði: Ég veit ekki nákvæmlega hvað þetta gæðastjórnun er: En ég veit það eitt að góð stjórnun felst í að ráða gott fólk - þá sparar maður sér vandræði, mistök, kvartanir og tímasóun við að gera hlutina upp á nýtt.
Þetta voru vísindi á einföldu máli.
Gleymum því aldrei að góð stjórnun er ekki fyrir þann sem stjórnar - heldur fyrst og fremst fyrir kröfuharða viðskiptavini.
Veislugestir góðir.
Margir hafa komið að undirbúningi þessarar ráðstefnu. Afmælisnefnd félagsins skipulagði dagskrána hér í dag í samvinnu við stjórn. Hún ýtti verkefninu úr vör.
Í afmælisnefndinni voru Margrét Reynisdóttir, fyrrverandi formaður Stjórnvísi, Ásta Malmquist og Sólveig Hjaltadóttir.
Í undirbúningi þessarar ráðstefnu hefur þó mest mætt á framkvæmdastjóra félagsins, Gunnhildi Arnardóttur.
Ég þakka þeim þeirra þátt.
Góðir gestir.
25 ára afmælisráðstefna Stjórnvísi er sett og gefum afmælisbarninu hressileg lófaklapp.
höfundur og flytjandi: Jón G. Hauksson, formaður stjórnar Stjórnvísi 2011