Vegna fjölda fyrirspurna að undanförnu um útsendingar Dokkunnar til félagsmanna Stjórnvísi vill stjórn Stjórnvísi árétta að Dokkan er á engan hátt tengd Stjórnvísi.
Dokkan er nýtt fyrirtæki á vegum Mörthu Árnadóttur, fyrrverandi framkvæmdastjóra Stjórnvísi. Martha hætti hjá Stjórnvísi í júní eftir nokkurra ára farsælt starf sem framkvæmdastjóri og stofnaði Dokkuna þegar í kjölfarið.
Félagsmenn hafa spurt að því hvort Dokkan sé í samkeppni við Stjórnvísi og því er til að svara að ekki verður annað séð en að svo sé. Starfsemin er afar keimlík og byggir augljóslega á hugmyndafræði Stjórnvísi.
Það skal tekið fram að netfangalisti Stjórnvísi hefur ekki verið sendur til Dokkunnar af Stjórnvísi, en félagsmenn hafa spurt að því eftir að hafa fengið póst frá Dokkunni að undanförnu. Skipulag funda Dokkunnar, stofnun faghópa, fyrirlesarar og umfjöllunarefni eru ekki á vegum Stjórnvísi.
Stjórnvísi er framsækið félag um stjórnun og er ekki rekið með hagnaðarvon í huga. Það er stærsta stjórnunarfélag á Íslandi með yfir 800 félagsmenn innanborðs. Félagið stefnir að því að starfa áfram sem öflugt fagfélag.
Samkeppni er af hinu góða. En þessar aðstæður verða að teljast harla óvenjulegar og þess vegna hvetur Stjórnvísi félagsmenn til að standa vörð um félagið sem óháð og frjáls félagasamtök um stjórnun og vera þess meðvitaðir að Dokkan er ekki Stjórnvísi.
Stjórn Stjórnvísi