Að vera hluti af lausninni
Samfélagsleg ábyrgð felst í því að fyrirtæki leggja sitt af mörkum til framfara í samfélaginu við að efla komandi kynslóðir. Samfélagsleg ábyrgð tengist öllum rekstrarþáttum fyrirtækja, hvort heldur þeir eru efnahagslegir, lagalegir eða siðferðislegir. Flest fyrirtæki vinna nú markvissar að samfélagslegri ábyrgð og flétta hana inn í áætlanir sínar til langs tíma. Auk kröfu um aukinn hagnað þurfa stjórnendur að glíma við væntingar hagsmunaaðila og taka ábyrgð á ákvörðunum og aðgerðum sem snerta umhverfi, efnahag og samfélag. Nýlegar rannsóknir sýna að fyrirtæki sem vinna skipulega með samfélagslega ábyrgð og sjálfbærni vegnar betur, þegar horft er til lengri tíma.
Lykillinn að vinnu við samfélagslega ábyrgð er nýskapandi hugsun:; að hugsa hlutina út frá nýju sjónarhorni með það fyrir augum að vera hluti af lausninni en ekki vandamálinu. Nýsköpunin hjá fyrirtækjum getur orðið á fimm mismunandi stigum:; í þróun vöru og þjónustu; með bættum ferlum í fyrirtækinu:; með endurskoðun og breytingum á hagnaðarmódeli fyrirtækisins:; með breytingum á viðskiptahugmynd eða breytingum innan atvinnugreinar. Hér á landi hafa fá fyrirtæki unnið skipulega með þessi mál en gera má ráð fyrir að fyrirtæki í útflutningi og/eða erlendu samstarfi séu þau sem fyrst finna fyrir þörfinni. Þá gildir að vera undirbúin.
Ávinningur er margþættur, t.d. betri yfirsýn og fyrirhyggja varðandi komandi kröfur, sem minnkar áhættu. Hagsmunaaðilar eru ánægðari, umhverfisáhrif minni, starfsmannamál betri, tækifæri opnast í vöruþróun, stjórnarhættir og neytendastarf batnar. Bætt samband við samfélag og hagsmunaaðila leiðir til hugmynda að gagnlegum verkefnum og orðsporið batnar.
Greinarhöfundur: Hulda Steingrímsdóttir, ráðgjafi hjá Alta